Rekaviður

Rekaviður

Allur reki hefur verið nýttur af ábúendum í gegnum tíðina

Mikið timbur rak á fjöru í Ófeigsfirði hér áður fyrr en það dró verulega úr því uppúr aldamótum. Rekaviður var mjög eftirsóttaverður þar sem seltan myndar viðarvörn og gerir timbrið sterkt og endingarmikið. Enn í dag er rekaviður sem ekki nýtist til sögunar nýttur til upphitunar í íbúðarhúsunum í firðinum. Er þá notast við kamínu eða ketil sem oft er kallaður draugur hér á bæ.

Sögun

Saga sögunar

Fyrsta sögunarstæðið var staðsett á bæjarhólnum. Þar var grafin gryfja sem var klædd rekavið og niður í henni var annar sögunarmaðurinn og hinn stóð uppá og var handsagað í fjalir. Sperrurnar í Gamla húsinu voru sagaðar á þennan hátt og það sem til þurfti þegar Gamla húsið var smíðað árið 1914, en þessi aðferð var notuð í þónokkurntíma eftir það. Á þeim tíma var timbrið meðal annars flutt norður yfir í Meyjardal og þaðan dregið vestur yfir Drangajökul inní Ísafjarðardjúp. Einnig var farið á Ófeigi inní Húnavatnssýslu, til Skagastrandar og á Miðfjarðarsand.

„Gamla sögun“ var byggð árið 1951. Hluti hússins var byggð úr fleka sem rak á stríðsárunum. Sögin var rafdrifin af virkjuninni í Húsá á meðan hún gekk. Uppúr 1966 var Listerinn, 16 hestafla mótor, gangasettur þegar unnið var við sögun. Þess má til gamans geta að rafdrifna sögin kostaði heilar 6.000 krónur og á sama tíma seldist staurinn á 2 krónur stykkið. Sögunarvélin var með timburborði. Uppúr 1970 var sögunarhúsið og vélin farin að þurfa mikið viðhald og dugði ekki lengur til að reka fleiga hingað og þangað og var ákveðið að byggja nýtt sögunarhús og á betri stað.

Sögun

Nýja sögun og Kara

Nýja sögun var reist 1975. Pétur ásamt bróðir sínum Ásgeiri og föður þeirra Guðmundi sáu um að reisa húsið en Pétur smíðaði sögunarvélina. Fyrst um sinn var hún drifin áfram af Listernum frá Gömlu sögun en síðar var nýr Lister keyptur og var hann 44 hestöfl. Sagað var aðalega í girðingstaura en einnig í einhver útihús á bæjum inní sveit.

Eftir að Kara sem var færanleg sögunarmilla kom til sögunnar árið 1994 var hægt að saga meira úr timbrinu. þá var m.a sagað í gólfin í Café Riis. Kara var drifin áfram af 85 hestafla traktor og var staðsett norðan á melnum. Hún var eins og sagði færanleg og var farið með hana víða til að saga rekavið á bæjum meðal annars alla leið á Bakkafjörð og á Langanes. Síðasta verk Köru var að saga rekavið árið 2012 í Nordatlantisk hus í Odense, Danmörku.

Öll timburhús í firðinum eru smíðuð úr rekavið.

Íbúðarhúsið er til að mynda byggt úr rekavið m.a. stoðir, ytri klæðning, gólf og gluggar.