Mjóni er gamall trébátur sem smíðaður var árið 1872 á Krossnesi í Árneshreppi.
Hér er Mjóni komin á sinn endalega stað í uppgerðu útihúsi í Ófeigsfirði.
Pétur Guðmundsson ábúandi segir svo frá haustið 2022;
Mjóni ST 23 var smíðaður á Krossnesi 1872 af Jóni Jónsyni Krossnesi, þeim sama og smíðaði Ófeig fimm árun síðar. Fyrsta frásögn af bátnum er að á útmánuðum þann vetur, hafi verið farið yfir á Skagaströnd til að sækja matvöru fyrir fólkið í Árneshreppi, þá væntanlega aðallega mjölvöru. Ekki er vitað hverjir fóru með Guðmundi í þessari ferð en líklegt er að Benjamín Jóhannesson, sem þá bjó á Krossnesi hafi verið einn þeirra.
Á Mjóna mun langafi, Guðmundur Pétursson hafa flutt í Ófeigsfjörð, en þar hóf hann búskap árið 1875. Eftir að Guðmundur flutti í Ófeigsfjörð hefur Mjóni verið sá bátur sem að öllum líkindum verið mest notaður, að minnsta kosti þangað til að það kom vélbátur.
Mjóni var sá bátur sem mest var notaður til selveiða og til ferðalaga þar sem ekki þurfti meirháttar flutningsgetu. Árið 1954 fór fram veruleg viðgerð á bátnum og lítilsháttar breyting á skutnum, en hann var mjög þunnur á skutinn og tók oft inn á sig undir netum ef ekki var því betra í sjó. Ragnar Jakobson úr Reykjarfirði annaðist þá viðgerð. En hann var þá í Ófeigsfirði við byggingu Nýja hússins. Húsið var orðið fokhelt og veturinn notaður til verksins, báturinn settur inn í stofu og náði inn í svefnherbergið við hliðina.
Mjóni var notaður til 1973, en síðustu árin var hann aðeins notaður til að leggja netin en skekta sem komin var, var notuð til að vitja um og færa netin þegar þess þurfti. Hann var sem sagt notaður í 100 ár.
En til marks um það hve Mjóni var þunnur í afturendann má geta þess að bæði pabbi og ég fórum upp fyrir klofstígjvél við umvitjun á netum, en bæði afi og langafi sluppu við það vegna þess að þeir áttu engin klofstígvél, en þeir blotnuðu eigi síður.
Eftir að hætt var að nota Mjóna var hann settur á hvolf fyrir ofan túngarðinn skammt fyrir norðan Naustin. Þar var hann í nokkur ár eða þangað til hætt var að nota sögunarskúrinn norður í Túnnesi, en þá var hann settur þar inn. Nokkrum árum síðar fauk skúrinn um koll og þá brotnaði báturinn dálítið að ofan. Þá hafði Þjóðminjasafnið falast eftir bátnum og fór ég þá með hann inn að Söndum í Miðfirði, en þar hafði Byggðasafnið á Reykjum geymsluaðstöðu. Þar var góð hlaða sem hætt var að nota því ábúendur höfðu brugðið búi. Fáeinum árum síðar komu ung hjón og settust að á Söndum og þá þurfti að rýma hlöðuna og þá var Mjóni settur í gamalt hús sem var með moldargólfi og þar seig hann niður í moldina. Torfi bróðir kom þar við á leið sinni og leist ekki á aðstæður. Var þá ákveðið að taka Mjóna og endurbyggja hann og tók Ragnar það að sér. Um hausti var Mjóni tekinn, settur á vörubíl og honum komið vestur til Bolungavíkur á verkstæði hjá Ragnari. Hann vann svo að honum um veturinn og haustið eftir var Mjóni sóttur og fluttur til Norðurfjarðar þar sem hann fékk að vera inni hjá Kaupfélagi Strandamanna, þar til hann var sóttur sumarið eftir. Hugmyndin var að róa honum norður þegar haldið var ættamót 1998, en á þessu ættarmóti var norð-austan bræla og ekki talið fært að með nær alla óvana til róðrar, en heim komst hann fáum dögum síðar. Að sjálfsögðu var komið við á Krossnesi þar sem hann var upphaflega smíðaður.
Að lokum er stutt frásögn af hálfgerðri svaðilför sem þeir tvíburarnir pabbi og Kalli fóru ásamt lækni sem þurfti að komast norður að Dröngum.
Lagt var af stað frá Ófeigsfirði í sunnan golu en rétt þegar þeir voru að reisa mastrið og setja upp segl brast á með sunnan roki. Þeir töldu að þetta væri bara smá kviða en það reyndist allt annað. Seglinu komu þeir ekki almennilega upp, kannski sem betur fer, en Kalli hélt seglinu utan um mastrið og þannig sigldu þeir norður í Viðbjarnarnaust. Viðbjanarnaust eru tvær víkur skammt fyrir innan Skerjasund. Þar sigldu þeir Mjóna næstum upp á þurrt. Eftir að búið var að ganga frá bátnum gengu þeir norður að Dröngum. Læknirinn sem með þeim var gerði sér ekki glögga grein fyrir aðstæðum, því þegar mest gekk á og báturinn þurrkaði sig aftur undir miðju, þá sagði hann að nú væri gaman, þó það gaman hefði auðveldlega getað orðið grátt.
Ekki hafði heimafólk í Ófeigsfirði neinar fréttir af þeim þremenningum fyrr en þeir komu til baka einhverjum dögum seinna.
Eftir að Mjóni var kominn norður eftir viðgerðina var honum komið fyrir í húsi sem byggt var til að geyma bátana yfir veturinn og þar er hann enn 2022. Áformað er að endurbyggja hesthúsið sem var við súgþurkunar hlöðuna og koma honum þar fyrir til varanlegrar geymslu, og þá verður hægt að hafa hann þar til sýnis fyrir þá sem áhuga hafa á því að sjá hann.