Undirbúningur og dúntekja

Hlunnindabúskapur í Ófeigsfirði

Æðardúnninn

Mikil alúð er lögð í undirbúning, túntekju og hreinsun

Æðarkollurnar leita gjarnan að hreiðurstæðum sem eru í skjóli, upp við klappir eða drumba. Því felst undirbúningur varptímans líka í að koma upp skjóli fyrir þær. Gerðar hafa verið ýmsar tilraunir við skjólgerð, svo sem að dreifa rekaviðar drumbum á víð og dreif um varpið,  koma litlum varphúsum fyrir og dekkjum.  Á síðustu árum höfum við gert tilraunir með að binda saman trollkúlur í lengjur og koma fyrir á varpsvæðinu. Þetta hefur slegið í gegn hjá kollunum, og voru þær fljótar að koma sér fyrir við fyrstu “kúluvörpin” sem sett voru upp. 

Það má segja að undirbúningur varpsins hefjist sumarið á undan, því þá er heyjað af túnum í kringum bæina, heyið þurrkað og því komið fyrir í stórum sekkjum sem eru hengdir upp í hlöðunni. Það getur verið heilmikil vinna að ferja hey og mannskap út í Eyju á vorin og er notast við lítinn plasthraðbát sem kallast “Blámi” við þær ferðir. Blámi hentar ljómandi vel fyrir þetta hlutverk, en það tekur um 15-20 mínútur að sigla þær 3-4 mílur sem eru út í Eyju frá bænum. Heyi og öðrum varningi er komið fyrir í litlum pramma sem bundinn er aftan í Bláma. Áður fyrr var trillan Heppinn notuð til þess að ferja fólk og búnað út í Eyju og Hólma. Það var mun seinlegra og gat tekið um 1 klst að sigla þessa sömu leið.

Heyjað fyrir næsta sumar
Blámi
Allt gefið í
Heppinn hvílir sig núna í garðinum þar sem börnin sigla og leika.

Dúntekja hefst fljótlega eftir að fuglinn byrjar að verpa. Mikilvægt er að gengið sé rólega um svæðið og reynt að styggja fuglinn sem minnst. Fjölskyldan heldur sterkt í gamlar hefðir og  fer yfir svæðið með ákveðnu skipulagi sem byggir á því að fara í þéttum hóp yfir svæðið til þess að stytta þann tíma sem fuglinn er af hreiðrinu. Hluti dúnsins er tekinn úr hreiðrum sem búið er að verpa í. Í staðinn fyrir dúninn er heyi komið fyrir í hreiðrinu og passað uppá að fari vel um eggin. (Rannsókn um hitabreytingu vegna þessa).

Æðarkollan verpir um 3-6 eggjum, og er útungunartími þeirra 25-28 dagur. Á þessum tíma fer kollan ekki af hreiðrinu nema hún sé fæld af því og nærir sig ekki. Á meðan varptíma stendur er reynt að fara sem oftast í varpið, bæði til þess að fylgjast með og til þess að sinna fuglinum. Æðarfuglinn er afar gæfur á þessum tíma og er oft hægt að klappa kollu sem situr á eggjum. Blikinn situr oft hjá kollunni sinni þar til ungarnir hafa klakist úr eggjum. En ef veður breytist og gerir norðan með kulda, forðar hann sér.

Þegar æðarkolla fælist af hreiðri, þá skítur hún oft yfir eggin og er þetta varnarviðbragð hennar til að minnka líkur á að rándýr vilji stela eggjunum. Þessi hreiður köllum við skítahreiður og eru ekki vinsælustu hreiðrin til að sinna fyrir yngstu kynslóðina og hefur gjarnan heyrst kallað – „amma – það er skítahreiður“.

Þegar ungarnir komast úr hreiðri halda þeir strax út á sjó og má oft sjá hópa af æðarfuglum saman út á sjó. Flestar fóstrur eru geldfuglar sem vernda ungana og leiða þá á fæðuslóð. Dúnn er aðeins týndur í góðu veðri, ekki má vera of kalt né heldur má vera vindur eða rigning þegar dúnninn er týndur. Allt er gert til þess að ná honum sem bestum.

Stundum finnast örsmá egg í hreiðrum æðarkollunnar, þessi egg eru kölluð hreiðurböggull og hefur verið talið að þetta séu síðasta egg kollunnar, en það er ekki, heldur er það gjarnan fyrsta eggið.

Æðarfuglinn er vanafastur og virðist sækja oft í sama hreiðurstæði, þótt sé erfitt að þekkja kollurnar í sundur þá eru alltaf einstaka sem skera sig vel úr. Ein slík kemur ár eftir ár og þekkist vel því hún er albinói og verpir alltaf á sama stað í Eyjunni, en ekki endilega í sama hreiðrið.

Strax eftir að dúnninn hefur verið týndur, er hann settur á þar til gerðar grindur til þurrkunar í Dúnhúsinu. Dúninum er dreift með jöfnu lagi yfir grindurnar og eggjaskurn, hey og annað rusl er hrist úr með höndunum. Dúnn úr hverri ferð er haldið aðskildum.

Dúnninn er þurrkaður í þurrkskáp við um 125°C í u.þ.b 48 klst.  Það sem gerist í þurrkuninni er að eggjaskurn og hey sem leynist í dúninum verður stökkt og hrynur því vel úr dúninum. Eftir þurrkun er dúnninn settur í krafsara, þar sem óhreinindi eru fjarlægð enn frekar og þaðan yfir í fjaðratýnslu vélina sem eins og nafnið gefur til kynna, hefur þann tilgang að hreinsa fjaðrir úr dúninum.

Eftir þessa meðhöndlun er komið að loka skrefinu sem felst í því að fara í gegnum allan dúninn með höndunum og handtýna þau óhreinindi og fjaðrir sem hafa slæðst í gegnum vinnsluferlið. Þetta skref í ferlinu er tímafrekasti þátturinn krefst vandvirkni og þolinmæði.

Árið 2019 var gamalt útihús gert upp og breytt í fullbúna dúnhreinsun. Húsið hýsti áður heimasmíðaða sögunarvél sem var notuð til þess að saga niður rekavið. Húsið var endurbyggt frá grunni og búinn tækjum til dúnhreinsunar.

Full hreinsaður dúnn er metinn af viðurkenndum matsmanni, þar sem farið er yfir gæði dúnsins. Eftir að dúnninn hefur verið vottaður er hann seldur og er það nær undantekningarlaust úr landi.